Færsluflokkur: Spaugilegt
Eftirfarandi samtal átti sér stað á milli okkar Erlu systur í útskriftarveislunni hennar Sonju á laugardaginn var. Tek það fram að við sjáumst ekki eins oft og við vildum vegna óhagstæðrar búsetu, aðallega Erlu þó.
Erla: "Af hverju ert þú svona grönn?"
Guðrún: "Ég er ekkert grönn, er þetta ekki bara kjóllinn?" (Ég skrapp samt töluvert saman við þessa athugasemd).
Erla: "Hvar fékkstu kjólinn?" (Líklega langað að létta sig eitthvað aðeins líka).
Guðrún: "Ég fékk hann í Hagkaup."
Erla: "Er þetta TRUE?"
Guðrún: "Nei, þetta er ekki merkjavara (fliss). Eða ég held ekki. Held það standi EVE á merkinu."
Erla: Kíkir á miðann. "Það stendur DONNA design."
Guðrún: "Jahá, þá er þetta hönnun hvorki meira né minna."
Erla: "Já. Það stendur hérna DONNA design og ... (hikandi mjög) ... tvöfalt XL."
Það þarf vart að taka það fram að þarna fór ég samstundis í mitt fyrra horf!
Spaugilegt | 26.6.2013 | 16:51 (breytt kl. 16:51) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef tvisvar um ævina farið á útihátíð. Árið 1988 og 1990.
Þetta var árið 1988 og við systur (Guðrún og Erla) hlökkuðum mjög mikið til þess að fara saman á slíka hátíð, en við vorum þá á sautjánda ári. Okkur hafði tekist að fá far með vini okkar og stefnt var á að leggja af stað eftir vinnu á föstudegi. Við systur unnum þetta sumarið báðar í póstmiðstöðinni við Ármúla, ég við afgreiðslu í böggladeild og Erla við símsvörun o.fl. á skrifstofu póstmeistara. Um hádegi á fimmtudegi tilkynnti vinur okkar að ferðaáætlun hefði breyst og hann ætlaði að leggja af stað um hádegi daginn eftir. Við töluðum báðar í hvelli við yfirmenn okkar og óskuðum eftir leyfi. Það varð úr að ég fékk leyfi, en ekki Erla. Nú voru góð ráð dýr. Við vissum ekki um neinn annan sem var að fara norður og það kom ekki til greina að sleppa því að fara. Við reyndum að suða í vininum um að leggja seinna af stað, en án árangurs. Við sáum okkur því tilneyddar að grípa til þess óyndisúrræðis að tilkynna veikindi. Á föstudagsmorgni sest Erla niður með símann, hringir í yfirmann sinn og reyndi að gera sig eins laslega í rómnum og hún mögulega gat. Hún byrjar á að bjóða góðan daginn og svo segir hún: "Þetta er Erla. Ég ætlaði bara að láta þig vita að ég er mjög slompuð og treysti mér ekki í vinnuna."
Við rifjum þetta oft upp systurnar og veltumst enn um af hlátri. Hvað ætli aumingja konan hafi haldið um þessa 16 ára drukknu krakkaskömm?
Okkur hefndist reyndar fyrir að skrökva svona, því taskan með öllu snyrtidótinu okkar, aðaltaskan, gleymdist heima. En við skemmtum okkur engu að síður mjög vel:)
Spaugilegt | 5.6.2013 | 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Spaugilegt | 23.6.2012 | 17:26 (breytt kl. 22:11) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nágrannaerjur hafa verið til umfjöllunar í fréttum undanfarið. Þó ég hafi víða búið hef ég oftast verið heppin með nágranna. Þó varð eitt sinn vitni að "skemmtilegu" rifrildi sem átti sér stað milli nágranna minna Jóns og Gústa í Skipasundinu. Jón og Gústi (oft uppnefndur Hvanndala-Gústi af Jóni) bjuggu í tvíbýli við hliðina á mér í Skipasundi og deildu bæði garði og bílastæði. Þeir áttu víst oft erfitt með að komast að samkomulagi um ýmislegt sem varðaði húsið og lóðina.
Sumar nokkurt keypti Gústi sér notaðan snjósleða sem hann hugðist taka með sér í jöklaferðir á komandi vetri. Snjósleðanum, ásamt kerru sem með honum fylgdi, kom Gústi fyrir á sínum helmingi bílastæðisins.
Eitthvað fór þetta í taugarnar á Jóni og dag einn, þegar ég var að svæfa Sindra úti í vagni, heyri ég að hann spyr Gústa hvort það standi ekki örugglega til að fjarlægja snjósleðakerruna fljótlega. Gústi svarar neitandi og bætir því við að hann hljóti að ráða því sjálfur hvort hann geymi sleðann á bílastæðinu sínu. Varla sé hann fyrir Jóni.
Þá segir Jón: "Nei, nei. Sleðinn er ekkert fyrir mér. Það er bara mikil sjónmengun af þessu drasli."
Gústi svarar þá að bragði: "Það er nú ekki nærri því eins mikil sjónmengun af þessu og er af henni Kristrúnu þinni þegar hún er að spóka sig hérna um á stuttbuxunum."
Þetta má alveg kalla góðan granna :)
Spaugilegt | 26.7.2010 | 14:39 (breytt 25.6.2012 kl. 12:50) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Í mörg ár hafði maður vinkonu minnar það til siðs að kaupa Lottóseðil á laugardögum. Þetta var fyrir um 18 árum síðan og fyrir tíma áskriftar.
Laugardagskvöld nokkurt fór maðurinn út að borða með félaga sínum og bað konuna að fylgjast með útdrættinum í sjónvarpinu og skrifa hjá sér vinningstölurnar. Einhver púki hljóp í konuna og ákvað hún að stríða manninum. Hún kíkti á Lottóseðilinn hans, valdi eina númeraröðina og skrifaði á miða.
Seint um kvöldið kom maðurinn heim, eilítið við skál. Hann spurði um vinningstölurnar og með sakleysissvip rétti konan honum miðann. Maðurinn setti upp gleraugu og fór að bera saman tölurnar af miðanum og á Lottóseðlinum.
Skyndilega rak maðurinn upp gól, þeytti gleraugunum út í horn, þreif í brúnina á stofuborðinu og velti því um koll með tilheyrandi látum. "JAAAAAAAÁ, 5 RÉTTAR, ÉG VAAAAAAN, ÉG VAAAAAAAN!", öskraði hann.
Konunni varð auðvitað töluvert brugðið við lætin og reyndi að róa manninn. "Það er óþarfi að skemma stofuborðið", sagði hún. "Ég kaupi bara nýtt", gólaði maðurinn um leið og hann sópaði gamla sjónvarpstækinu niður á gólf.
Það er skemmst frá því að segja að það tók manninn töluverðan tíma að fyrirgefa konunni... og konuna töluverðan tíma að eignast nýtt sjónvarp.
Spaugilegt | 16.7.2010 | 16:10 (breytt kl. 16:11) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég heyrði auglýsingu frá Aktu -Taktu í útvarpinu áðan og þá rifjaðist upp fyrir mér dálítið skemmtilegt...
Langamma sona minna var eitt sinn að passa 8 ára dótturdóttur sína yfir helgi og mamma hennar bað mig að skutla til hennar tösku sem gleymst hafði heima. Þegar ég kom með töskuna fékk ég að heyra um ævintýri dagsins yfir kaffibolla. Þær höfðu m.a. gengið niður Laugarveginn og niður að tjörn, þar sem þær gáfu öndunum brauð, og svo alla leiðina heim aftur.
"Það var mjög gaman hjá okkur," sagði gamla konan brosandi. "En þegar við komum heim vorum svo hræðilega þreyttar að við nenntum ekki að elda kvöldmat. Við keyptum okkur þess vegna bara hamborgara hérna úti í Taktu mig - Éttu mig."
Einhvern veginn tókst mér að halda niðri í mér hlátrinum á meðan ég kvaddi þá gömlu, en um leið og ég var komin inn í bíl sprakk ég úr hlátri.
Síðan þá hafa Aktu - Taktu sjoppurnar aldrei verið kallaðar neitt annað í minni fjölskyldu en Taktu mig - Éttu mig.
Spaugilegt | 14.7.2010 | 10:59 (breytt kl. 11:01) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Nota bene
Links
www.iceland.co.il
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar