Færsluflokkur: Dægurmál

Þorpari um Þorpið hans Bubba

Ég fékk þennan texta sendan frá þorpara sem ég þekki og fékk leyfi til að birta hér:

Bubbi Morthens hefur í gegnum tíðina sent frá sér mörg frábær lög og texta og verið mikilvirkur tónlistarmaður, það verður ekki af honum skafið. Texti lagsins Þorpið, á samnefndum diski, hefur farið fyrir brjóstið á mörgum, sér í lagi íbúum þorpanna á landsbyggðinni. Fyrir utan að vera á köflum ambögulegur, gefur hann ekki rétta mynd af því sem er að gerast í dag í flestum þorpum landsins. Vissulega fór ýmsilegt miður og fólki fækkaði en önnur atvinnutækifæri hafa komið til sögunnar Í þorpunum er víða auðugt mannlíf sem verðskuldar ekki allt að því niðrandi framsetningu um eitt og annað og tæplega er sett fram að einstaklingi sem ber hag smærri byggðarlaga fyrir brjósti sér. Að gera lítið úr eldri borgurum "gamalt lið" er ekki fallega gert og fíkniefnatengingin "feitar jónur" er ekki smekkleg.
Vissulega hefur straumurinn legið til höfuðborgarinnar, tækifærin lágu þar en gera það svo sem ekki eins og er, þar er víða pottur brotinn og búseta þar ekki endilega besti kosturinn, hver velur fyrir sig að sjálfsögðu.
Textinn "Upprisa Þorpsins" er dálítið andóf gegn texta Bubba, höfundurinn þekkir vel þorpslífið, bæði í blíðu og stríðu og er einn af þeim sem mislíkar framsetning Bubba. Texti minn er svo sem ekkert dýrt kveðinn og hugsanlega má syngja hann undir lagi Bubba.
Þorpsbúi

Upprisa þorpsins

Þorpið fagnar vori frystihúsið situr
fast á sínum grunni einnig vélar og rær.
Bátarnir við festar, fellur stöku dritur,
fiðruðum úr rassi, bryggjupollinn hlær.
Unga fólkið er alltaf úti að vinna,
eldri borgarar hugðarefnum sinna.
Mögur voru ár þeim er að linna,
þorpið er að þenjast út.

Grasið vex í görðum á malbiki ökum
gyllir sólin fagran fjallanna hring.
Fer stundum bak við fjöllin, því rólega tökum,
fögnum hennar endurkomu glaður ég syng.
Að sunnan unga fólkið kom úr solli,
sagðist ekki una borgardrolli.
Þar skelfilegur ofbeldis er skolli,
þorparar þar þenjast út.

Eigum ágæt hús öll þau kosta krónur,
karlar í þeim búa einnig Siggur og Jónur.
Í leikskólanum bergmála gleðihróp barna,
bersýnilega þeim líkar vel þarna.
Því lífið í borginni heillar ekki lengur,
landsbyggðarlífið er happafengur.
Látum út í hafsauga allar fána "stengur"
þorpið er að þenjast út.

Bölsýnn steig fram með barlómi og látum
beljaði um kvótatap og báta í nauð.
Í verbúðum forðum hann vann ei með skátum,
vísur um það orti og landsmönnum bauð.
Unga fólkið vill á bölsýnina blása,
berjast hér til þrautar opna lása.
Bölmóðsskáldin mega áfram mása,
þorpið er að þenjast út.

Stórfengleg fjöllin þau stara út á fjörðinn
stöðugt er þorpið, traust stendur vörðinn,
Ég hendist í bað held ég upp mig dubbi
harmaljóð á pöbbnum það er sagt víst Bubbi.
Vona að hann vitleysu ekki spinni,
í vösum hans ei finnist nál og tvinni.
Gamalmennagammatali linni
þorpið er að þenjast út.

Lopann teygja má lengi um drauma,
látnar krónur og starandi fjöll.
Gammafóður sem gaufar við sauma,
gatslitnar lummur um niðurrifströll.
Af reynslu best um málin er að ræða,
réttar upplýsingar saman bræða.
Þurfum ekki nálarauga að þræða,
þorpin aldrei þurrkast út.


Góður granni

Nágrannaerjur hafa verið til umfjöllunar í fréttum undanfarið. Þó ég hafi víða búið hef ég oftast verið heppin með nágranna. Þó varð eitt sinn vitni að "skemmtilegu" rifrildi sem átti sér stað milli nágranna minna Jóns og Gústa í Skipasundinu. Jón og Gústi (oft uppnefndur Hvanndala-Gústi af Jóni) bjuggu í tvíbýli við hliðina á mér í Skipasundi og deildu bæði garði og bílastæði. Þeir áttu víst oft erfitt með að komast að samkomulagi um ýmislegt sem varðaði húsið og lóðina.

Sumar nokkurt keypti Gústi sér notaðan snjósleða sem hann hugðist taka með sér í jöklaferðir á komandi vetri. Snjósleðanum, ásamt kerru sem með honum fylgdi, kom Gústi fyrir á sínum helmingi bílastæðisins.

Eitthvað fór þetta í taugarnar á Jóni og dag einn, þegar ég var að svæfa Sindra úti í vagni, heyri ég að hann spyr Gústa hvort það standi ekki örugglega til að fjarlægja snjósleðakerruna fljótlega. Gústi svarar neitandi og bætir því við að hann hljóti að ráða því sjálfur hvort hann geymi sleðann á bílastæðinu sínu. Varla sé hann fyrir Jóni.

Þá segir Jón: "Nei, nei. Sleðinn er ekkert fyrir mér. Það er bara mikil sjónmengun af þessu drasli."

Gústi svarar þá að bragði: "Það er nú ekki nærri því eins mikil sjónmengun af þessu og er af henni Kristrúnu þinni þegar hún er að spóka sig hérna um á stuttbuxunum."

Þetta má alveg kalla góðan granna :)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband