Þá er mér lausari höndin

Ég var nýflutt í smáþorp eitt þegar nágranni minn ákvað að "gera mér þann greiða" að vara mig við ákveðnum íbúum þar. Meðal þeirra sem hann ráðlagði mér að forðast var hún Krísa, en Krísa var að hans sögn ægilegt skaðræðiskvenndi. Ég kynntist Krísu fljótlega eftir að ég byrjaði að kenna syni hennar íslensku. Hún hringdi í mig seint að kvöldi, til að lýsa yfir ánægju sinni með að sonurinn hefði loksins fengið almennilegan kennara og vonandi kæmi hann til með að læra meira hjá mér en hjá "hinu fíflinu" sem kenndi honum. Ég brosti með sjálfri mér yfir þessu klaufalega orðavali, þakkaði konunni fyrir símtalið og gerði mig líklega til að kveðja. En Krísa þurfti að tala mikið og lengi. Hún fór ófögrum orðum um flesta þá sem hún nefndi á nafn og aldrei hafði ég heyrt annað eins orðbragð hjá fullorðinni manneskju. Hún sagðist vera mikil áhugamanneskja um íslenskt mál og vildi endilega fá að kíkja á vetraráætlunina hjá mér við tækifæri. Ég var orðin dauðsyfjuð og vildi losna úr símanum sem fyrst svo ég bauð henni að koma við hjá mér daginn eftir. "Á morgun," sagði hún og þagði dágóða stund. "Nei, ég ætla frekar að koma á fimmtudaginn. Þá er Helgi heima og þá er mér lausari höndin." Þegar þarna var komið við sögu neyddist til að gera mér upp hóstakast þar sem ég hreinlega sprakk úr hlátri. Helgi ræfillinn (eins og bæjarbúar kölluðu hann) var maðurinn hennar Krísu og nágranninn hafði látið það fylgja viðvörunarfyrirlestrinum um hana, að hún hikaði ekki við að berja manninn sinn til hlýðni. Ég skildi þarna af hverju.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband